Aðalfundur SÍL var haldinn 9. mars kl. 16:30 í húsnæði Lúðrasveitar Hafnarfjarðar.

Fundurinn hófst kl. 16:38 og mættu eftirtaldir: Páll Pálsson Formaður SíL frá Lúðrasveit Verkalýðsins, Brynjar Óskarsson meðstjórnandi í SÍL frá Lúðrasveit Hafnarfjarðar, Hans Orri Straumland ritari SÍL frá Brassbandi Reykjavíkur, Þorkell Harðarson meðstjórnandi SÍL frá Lúðrasveitinni  Svanur, Sævar Garðarsson frá Lúðrasveitinni Svanur, Ólafur Þór Snorrason gjaldkeri SÍL frá Lúðrasveit Vestmannaeyja, Árni Pétur Árnason Lúðrasveit Fljótsdalshéraðs, Gréta Hauksdóttir Lúðrasveit Hafnarfjarðar, Þórunn Ármannsdóttir Lúðrasveit Verkalýðsins og Helgi Baldvinsson Svaninum. 

Páll tók að sér fundarstjórn og Hans skrifaði fundargerð.

Páll fór fyrst yfir skýrslu stjórnar, sem var samþykkt án athugasemda. Hann greindi jafnframt frá samskiptum við félag eigenda flutningsréttar og hvernig greiðslum vegna höfundarréttar hefði verið háttað. 

Næst var fundargerð síðasta fundar lesin upp af Hans og einnig samþykkt samhljóða.

Þá lagði Ólafur fram reikninga félagsins, sem voru þegar búnir að fá áritun frá Vilborgu, skoðunarmanni reikninga. Reikningarnir sýndu neikvæða rekstrarniðurstöðu, einkum vegna greiðslna til útsetjara vegna Leikandi Létt 3, en að öðru leyti voru litlar breytingar í rekstri. Fundarmenn samþykktu reikningana og gerðu ekki frekari athugasemdir.

Engar lagabreytingar lágu fyrir fundinum, en hins vegar var lögð fram tillaga um að hækka árgjaldið í 25.000 krónur, sem hlaut samhljóða samþykki. Við kosningu stjórnar bauð öll núverandi stjórn sig fram áfram og var endurkjörin. Stjórnin er Páll Pálsson formaður, Ólafur Þór Snorrason, gjaldkeri. Hans Orri Straumland, ritari. Brynjar Óskarsson og Þorkell Harðarsson, meðstjórnendur.
Að því loknu tilkynnti Páll að þetta yrði hans síðasta ár í stjórn og var fundurinn sammála um að upplýsa um það tímanlega og hvetja álitlega aðila til þátttöku.  

Brynjar lagði til að Valgeir yrði áfram skoðunarmaður reikninga og var það samþykkt. Þá var Helgi Baldvinsson boðinn fram af Svaninum sem annar skoðunarmaður og samþykktur samhljóða.

Undir liðnum önnur mál var farið yfir stöðu verkefnisins Leikandi Létt 3. Þorkell hefur haft umsjón með að samræma partitúr og fækka raddasíðum, enda kom í ljós að sumir útsetjarar höfðu ekki fylgt sameiginlegri forskrift. Markmiðið er að halda ytra útliti svipað og í fyrri Leikandi Létt bókum, en einsleitni þarf að tryggja með samröðun og uppsetningu. Þorkell og Páll munu vinna að því að ljúka þessu ferli, en rafrænar útgáfur nótna verði aðgengilegar fyrir íslenskar lúðrasveitir, meðal annars á nýju Google Workspace svæði SÍL, sem Hans vinnur að að setja upp. Áréttað var að útsetjarar eiga verk sín sjálfir, en SÍL dreifir afurðinni án endurgjalds til íslenskra lúðrasveita í samræmi við gömul og ný samkomulög. Ef aðilar utan SÍL vilja nota efni úr Leikandi Létt verður að semja beint við útsetjarana.

Að lokum var rætt um mikilvægi fjölbreytni útsetjara og hvort sumt efnið henti helst skólalúðrasveitum en væri of einfalt fyrir reyndari sveitir. Mörgum þótti brýnt að tryggja einnig krefjandi útsetningar fyrir stærri sveitir, en jafnframt væri þarft að eiga sveigjanlegar nótur fyrir minni sveitir eða fámennari hljóðfæraskipanir. Einnig var vikið að styrkjaúrræðum, svo sem hjá STEF og Rannís, sem gætu reynst gagnleg fyrir frekari útsetningar eða útgáfur. Fundarmenn voru sammála um að SÍL gæti styrkt slíka vinnu og komið þannig enn fleirum útsetningum í dreifingu. 

Fundi var slitið kl. 17:58.